Samantekt um þingmál

Verðbréfasjóðir

699. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að samræma íslenskar reglur við þær sem gilda á Evrópska
efnahagssvæðinu enda er þannig best gætt að hagsmunum markaðarins og fjárfesta og ýtt undir aukna starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi og íslenskra fyrirtækja erlendis. Að stuðla að skilvirkri framkvæmd EES-samningsins.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sett verði ný heildarlög um verðbréfasjóði en í því felst m.a. innleiðing UCITS V og Omnibus I-tilskipananna að því er varðar verðbréfasjóði auk viðbóta og breytinga vegna innleiðingar á UCITS-tilskipuninni. Einnig er í frumvarpinu kveðið á um lagastoð fyrir þremur undirgerðum UCITS V, sem fyrirhugað er að innleiða með stjórnvaldsfyrirmælum. Almennt eru ekki lagðar til efnisbreytingar á ákvæðum gildandi laga um verðbréfasjóði nema að því leyti sem innleiðing UCITS V og Omnibus I felur í sér. Lagt er til að hlutverk vörsluaðila verði skýrt frekar og ákvæði um ábyrgð þeirra endurbætt. Einnig er lagt til að skilgreint verði hvaða aðilar geti verið vörsluaðilar og að skilyrði verði sett fyrir útvistun á verkefnum vörsluaðila til þriðja aðila. Auk þess er gert ráð fyrir að settar verði strangari kröfur til sjálfstæðis stjórnarmanna vörsluaðila og rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Þá er lagt til að ákvæði um starfsleyfi og skipulagskröfur rekstrarfélaga verðbréfasjóða verði færð úr lögum um fjármálafyrirtæki og að rekstrarfélögin teljist ekki lengur til fjármálafyrirtækja heldur fjármálastofnana. Gert er ráð fyrir að skerpt verði á valdheimildum Fjármálaeftirlitsins og ákvæðum um samstarf við önnur lögbær yfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um verðbréfasjóði, nr. 128/2011. Við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017, lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020, og lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir litlum sem engum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum sem voru einkum tæknilegs eðlis.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB frá 19. mars 2007 um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum.


Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/14/ESB frá 21. maí 2013 um breytingu á tilskipun 2003/41/EB um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri, tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) og tilskipun 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða að því er varðar oftraust á lánshæfismöt.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB frá 23. júlí 2014 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög (UCITS V).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin) (Omnibus I).


Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.